Jæja þá er enn ein helgin flogin burt og aldrei hún kemur tilbaka. Fór út á lífið með Óskari Hafliða á föstudagskvöldið. Fengum okkur í gogginn á Apótekinu, ég fékk mér lax í forrétt og saltfisk í aðalrétt. Kíktum síðan á REX eftir matinn og þar voru allir í sjóðandi heitri salsasveiflu. Ég hafði ætlað mér að vera komin heim um eitt leytið en ákvað að vera aðeins lengur, svona til þrjú. Síðan þegar klukkan small þrjú, greip ég hatt minn og skó og arkaði af stað heimleiðis til konu og þriggja barna. Á leiðinni heim hitti ég síðan eldgamlan og úr sér genginn kærasta úr forneskju sem vildi endilega að ég kæmi með honum á 22 því þar væri alltaf brjáluð stemmning sem alls ekki mætti láta fram hjá sér fara. Ég gat náttúrulega ekki sagt nei við því og skellti mér því aðeins á 22. Þegar klukkan sló fimm þá sagði minn nú dimmalimm og arkaði heim á leið.
Daginn eftir fórum við síðan í skírn hjá Jórunni og Jóa, og þar var litla dóttir þeirra skírð Selma Jóadóttir.
Í gær fór ég svo að vinna til klukkan fjegur en þá hófst landsleikurinn sem ekki mátti missa af. Ekki blés nú byrlega fyrir okkur frónverjum í byrjun þessa leiks við drumbana frá Tékklandi. Við vorum mest 9 mörkum undir og þá hélt ég nú að væri fokið í flest skjól. En við bitum allhressilega í skjaldarrendurnar um miðjan seinni hálfleik, svo hressilega að þær næstum hrukku í sundur. Viggó var alveg að fara á límingunum á hliðarlínunni og skildi eftir sig þar sviðna jörð. Jafntefli varð niðurstaðan, sem ég held að við verðum að vera nokkuð sáttir við miðað við gang leiksins, þó svo að við hefðum með smá heppni getað stolið sigrinum í blálokin.
Leigðum síðan ræmuna um Helvítisstrákinn um kveldið sem reyndist vera hin ágætasta skemmtun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli