föstudagur, september 19, 2008

Ella Illuga stungið ofan í kolabing

Sósa bárust þær skelfilegu fréttir til eyrna á dögunum að það væri búið að stinga Ella Illuga (Von Döri) í kolabing, læsa og henda lyklinum. Sósi hvetur alla sem á kettlingi geta haldið að leggjast á eitt til þess að frelsa kauða úr prísundinni. Kolabingurinn er staðsettur upp við Rauðavatn og með sameiginlegu átaki ættu svona hundrað manns að geta frelsað hann. Sósi leggur því til að við hittumst stundvíslega klukkan 9 í kvöld með kúbein og melspírur og þá ætti þetta að verða létt og löðurmannlegt. Öngvar ástæður fengust hjá ráðamönnum þjóðarinnar af hverju í andsk... honum hefði verið stungið ofan í binginn, en áreiðanlegar heimildir Sósa herma að hann hafi verið orðinn ógn við þjóðaröryggi þ.e.a.s. að hann hafi verið orðinn hinn versti lýðsskrumari.

fimmtudagur, september 18, 2008

Köttur í bóli Sósa

Sexti fjölskyldumeðlimurinn bættist við Sósa family í vikunni er kötturinn "Sófer" bættist í hópinn. Að vísu voru bara fjórir fjölskyldumeðlimir virkir er Sófer birtist, því elstu niðjar Sósa tóku þá skemmtilegu ákvörðun að flytjast að heiman í vikunni (go Stella go). Ekkert hefur spurst til þessa niðja í fimm daga og eru Sósi og Lomma alveg gapandi hissa á ástandinu.
Nýtt útlit á Sósa og Sósabloggi!

Nú geta gestir og gangandi "commenterað" á vitleysuna og jafnvel skilið eftir dónaleg skilaboð til Sósa sem tekur fagnandi á móti öllum slíkum ófögnuði.
Er allt heila klabbið að sigla í strand?

Sósa er alveg hætt að lítast á blikuna varðandi efnahagsástandið í heiminum. Það virðist sem svo að ekkert fái stöðvað skrið lausafjárkreppunnar sem fór af stað í Bandaríkjunum á síðasta ári vegna undirmálslánakrísunnar viðbjóðslegu. Þegar menn eins og Björgólfur eldri og yngri eru farnir að kveinka sér undan ástandinu þá er Sósa hætt að lítast á blikuna og heldur að best væri fyrir alla að grafa sig bara í fönn í vetur og koma ekki fram í dagsljósið fyrr en í fyrsta lagi 2010. Sósi sló á þráðinn til Bjögga eldri í hádeginu, svona aðeins til þess að tékka á stöðunni og þá hafði hann þetta um málið að segja. "Sósi minn því er nú oftast þannig farið að eins manns dauði er annars manns brauð, en það á bara ekki við núna kallinn minn" sagði Bjöggi og sýndi Sósa galtóma vasana sem lyktuðu af túköllum og tíeyringum sem fyrir löngu er foknir út í veður og vind eftir mikla sviptivinda í brókinni undanfarna mánuði.