miðvikudagur, mars 02, 2005Elías þurfti að fara í heilaskönnun upp í Domus Medica vegna þess að hann var alltaf að detta út, sérstaklega ef hann fékk sér í glas. Nú Elli lét ekki segja sér það tvisvar og smellti sér í skannan með einn svellkaldan öl við hendina. Hann var að fá myndirnar í morgun ásamt greiningu heilaskurðlæknisins sem var eitthvað á þessa leið "Þegar þú drekkur þá þurrkast allir dagskrárliður út úr hausnum á þér, og þú fellur í svokallaðan fimmtudagssindrom sem gerir það að verkum að allar stöðvar detta út. Ég legg því til að þú hættir að drekka melurinn þinn annars er hætta á ferðum". Elli fékk að eiga myndirnar sem komu úr skannanum og með góðfúslegu leyfi Sprellans þá fæ ég að birta eina hér. Posted by Hello


Þegar ég sótti Rakel í vinnuna í gær, þá var hún með einhvern geðveikisglampa í augunum. Ég spurði hana náttúrulega hverju þessu sætti, og hún svaraði því til, að hún hefði farið í einhverjum tryllingi í Smáralind með samstarfskonu sinni og séð alveg geðveik kúrekastígvél. Hún blaðraði síðan látlaust um þessi stígvél og hvað þau væru tryllingslega flott og töff og geðsjúk. Ég hef nú oft heyrt svona óráðshjal áður svo ég lét þetta sem vind um eyru þjóta. Rakel gat síðan lítið sofið í nótt, og ef hún sofnaði, þá hrökk hún upp skömmu seinna með andfælum og öskraði "ríðum, ríðum, ríðum heim að ánni". Sagði síðan við mig að henni hefði verið að dreyma að hún hefði verið í útreiðartúr í kúrekastígvélunum sem hún sá í Smáralind. Í morgun þegar við vöknuðum vildi hún endilega drífa sig í vinnuna, og hamraði á því að hún ætlaði að taka bílinn og hvort að nokkuð væri í skottinu. Mig var nú farið að gruna að hún hefði nú tekið þá ákvörðun að bruna í Lindina og kaupa bévítans stígvélin. Þegar ég síðan kom til hennar í hádeginu til þess að sækja bílinn, þá var hún þegar búin að troða sér í nýju stígvélin og lét öllum illum látum. "Sjáðu mig, sjáðu mig Óskar" veinaði hún og steppaði eins og hún ætti lífið að leysa. Ég læt hér fylgja með mynd af stígvélunum, þannig að þið getið sjálf myndað ykkur skoðun á því hvort að allt þetta upphlaup hafi átt rétt á sér. Dæmi nú hver fyrir sig!! Posted by Hello

mánudagur, febrúar 28, 2005


Nú hefur Sósi Sig ákveðið að færa út kvíarnar. Sósi hefur nú í nokkur ár starfrækt bloggsíðu á alnetinu eins og flestum er kunnugt um og hefur hún notið gífurlegra vinsælda á meðal almennings í landinu. Hart hefur verið sótt að Sósa frá ýmsum fyrirtækjum um að fá að nota Sósa nafnið til þess að kynna vörur sínar og hefur Sósi reynst tregur til þess, þó svo að vænar fúlgur væru í boði. En nú hefur Sósi ákveðið að leggja lag sitt við bandaríska líkamsræktarfyrirtækið Disco Sweat sem framleiðir líkamsræktarspólur með frægum einstaklingum. Sósi þurfti því að brenna vestur eftir til þess að taka nokkur spor fyrir framan myndavélarnar. Spólan með Sósa kemur í búðir á Íslandi í næstu viku. Margt annað er í bígerð hjá Sósa og mun það koma í ljós á næstu vikum, fylgist því spennt með. Posted by Hello

Sósi Sig var á síðum blaðanna um helgina!! Blaðamenn DV eltu Sósa á röndum í Kringlunni og vildu ná tali af kauða. Eftir þónokkurn eltingaleik náðu blaðamenn að króa Sósa af upp við vegg og spurðu hann spjörunum úr. Sósi mundi ekki neitt og svaraði illa spurningum blaðamanna, það eina sem þeir náðu upp úr honum var að Ávaxtakarfan sem hann fékk í jólagjöf hefði verið honum eftirminnileg enda margt um gómgæti í þeirri ágætu körfu. Sósi var frekar súr á svip þegar blaðamenn DV smelltu af honum mynd, enda ekki á hverjum degi sem mynd næst af þessum heimsfræga landfræðing eða landfræðingi almennt. Samkvæmt áreiðanlegri könnun sem gerð var í kjölfarið á myndbirtingunni af Sósa, þá er þetta í annað sinn á 100 árum sem það birtist mynd af landfræðingi í fjölmiðlum. Posted by Hello