föstudagur, apríl 18, 2008

Þorgeir Ástvalds og Halli dottnir í það?

Þessi mynd náði Sósi af þeim dvergvöxnu kumpánum Þorgeiri Ástvalds og Halla kenndan við Ladda bróður sinn, á Ingólfstorgi í vikunni. Þar sátu þeir að sumbli og voru greinilega ekki í neinum skemmtanagír eins og þeir eru öllu jöfnu. "Það er bara búið að vera lítið að gera" sagði holan Halli er hann var spurður út í ástandið. Þorgeir var þögull sem gröfin, fitjaði einungis upp á nef sér og dró hendinni í gegnum sveittan makkann sem var býsna úfinnn eftir standandi fyllerí síðustu daga. "Andskotastu héðan í burtu blaðasnápur og láttu ekki sjá þig hérna framar" veinaði síðan Halli á Sósa er hann ætlaði að smella einni mynd af þeim félögum að skilnaði.

fimmtudagur, apríl 17, 2008

Von Dirty í slæmri klípu

Viðskiptamógúllinn Elijha Von Dirty komst í hann krappann á dögunum er hann sat fyrirlestur á viðskiptaþingi auðmanna í Jerúsalem. Elijha sem var sjálfur á mælendaskrá með erindi sem nefndist "How to make a million if you dont got a million and have to borrow it from another who has a million and is prepared to loan it so you can make a million" fékk fljúgandi stól í höfuðið er hann hafði lokið erindi sínu sem var átta klukkustundir í flutningi. Fólk í sal varð hreinlega hoppandi gramt eftir flutninginn og sakaði Vön Dirty um að hafa stolið erindinu af netinu. Margir sögðust kannast við erindið frá því í fyrra. Hér sést hvar Von Dirty er klipptur út úr stólnum sem endasentist ofan á höfuð hans.
Dúndrandi skítalykt arna!
Siggi Síkó gerir hreint fyrir sínum dyrum

Þessi skemmtilega mynd náðist af hinum fáséða fagurkera Sigurði Síkó þar sem hann var á leið niður á Ríkisskattstjóra með allt sitt hafurtask til að gera hreint fyrir sínum dyrum. Eins og flestir vita þá hefur Sigurður haldið vel utan um bókhaldið hjá sér eftir að hann gerðist sjálfstæður atvinnurekandi og safnað samviskusamlega öllum nótum er varða reksturinn í framsætið á bílnum sínum. "Ég ákvað náttlega að skila þessu inn þegar ég var hættur að geta skipt um gír. Náttleg búið að safnast soldið upp í gegnum árin" sagði Siggi við Sósa fyrir utan RSK, bullsveittur við að bera inn klepraðar nóturnar, glottandi með síkó við tönn.