fimmtudagur, mars 31, 2005


Alveg er það með ólíkindum hvað hann Þorgeir eldist vel, sjáið kallinn, hann er eins og nýsleginn túskildingur. Annars hefur þetta lengi loðað við landfræðingslýðinn, fallegir kroppar með eindæmum og æskuljóminn hreinlega geislar af þessum andskotum. Við á Sósi.is óskum Þorgeiri til hamingju með skrokkinn og nýja lookið og vonum að helvítið haldi koolinu allt til dauðadags. Posted by Hello

miðvikudagur, mars 30, 2005María og Oliver keyptu sér nýja íbúð í Nice í fyrra. Assgoti hugguleg íbúð, hátt til lofts og vítt til veggja. En það er einn galli á gjöf marðar og hann er sá að það mjög lítið útsýni úr íbúðinni, sérstaklega úr eldhúsinu. Posted by Hello

Ég er búin að hringja og hringja í Maríu systur í Frakklandi í algerum tryllingi síðastliðna daga. Það virðist vera eitthvað helvítis ólag á símkerfinu þarna úti! Posted by Hello


Eitthvað gengur illa hjá stórvini mínum honum Sigga galdrakarli að koma saman þessari galdrasýningu fyrir vestan. Grey kallinn hefur á átt í stökustu vandræðum með að finna fjármagn til þess að halda rekstrinum gangandi, svo ekki sé talað um uppbyggingu á nýju safni í Bjarnarfirði. En Sigurður deyr ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Siggi hefur nefnilega tekið á það ráð að ráðast með kjafti og klóm inná flösku- og dósamarkaðinn sem hingað til hefur verið einokaður af íþróttafélögum og tælenskum draugum sem sveimað hafa um í húsagörðum höfuðborgarinnar íbúum hennar til mikillar skemmtunar og yndisauka. Siggi segir að nú sé mál að linni og að hann geti hreinlega ekki setið á honum stóra sínum lengur, og segist ætla að uppræta þá spillingu sem hefur verið á markaðnum. "Þessir slordónar og andskotar hafa skipt markaðnum niður á milli sín eftir hverfum á leynilegum fundum sem haldnir hafa verið í gömlum lýsisgrútartanki í vesturbænum. Þeir hafa þannig setið einir að kjötkötlunum og safnað að sér auði bist og bast. En nú er mál að linni og ég ætla að taka til á þessum markaði eins og mér einum er lagið, ég mun koma eins og stormsveipur inná markaðinn svo eftir verður tekið". sagði Siggi við blaðamann Fréttablaðsins þar sem hann var að safna flöskum í Þingholtunum (gullni þríhyrningurinn) svo halda megi áfram þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur á Ströndum í kringum galdasýningarnar á Hómavík og í Bjarnarfirði. Siggi hefur nú tekið upp viðurnefnið Siggi Dós, en eins og flestir muna þá gekk Siggi lengi undir nafninu Siggi flaska enda alla tíð fundist sopinn góður. "Mér finnst þetta eiginlega bara fyndið enda lítill munur á dós og flösku, því allt verður þetta að ösku" sagði Siggi kampakátur að lokum, skellti í góm að hætti Strandamanna og strunsaði í burtu með dósir og flöskur í massavís niður Njarðargötuna í átt að Njarðargötu 25, því þar búa víst auðkýfingar sem henda öllu steini léttara beint út í tunnu, flokka hvorki né skila, svei attann. Posted by Hello

þriðjudagur, mars 29, 2005Ég og Kela fórum á Stuðmenn á fimmtudaginn og skemmtum okkur framar vonum. Mættum snemma í Leifstöð (11.30) og ætluðum að vera við öllu búin. Gerðum ráð fyrir að skríllinn mundi mæta snemma og byrja að hella í sig öl og meððí. Þegar við mættum á staðinn þá var engin í Leifstöð, bara við og einhver flækingshundur sem ráfaði þarna um í leit að einhverju ætiliegu. Við létum það þó ekki á okkur fá og gengum í það að tékka okkur inn. Það gekk ekki áfallalaust fyrir sig, því Rakel var ekki skráð með vélinni og því góð ráð dýr. Rakel sagði því kassadömunni að hún væri Loðmfjörð og þá var ekki að sökum að spyrja, daman á kassanum fór að afsaka sig og sagðist myndi redda þessu með því að henda annarri konu út af farþegalistanum sem hét Hulda. Við komumst því að lokum við illan leik inn í flugstöð og prísuðum okkur sæl á að komast út. Við fórum náttúrulega beint á barinn eins og góðum íslendingum sæmir, við vorum fyrst þannig að við fengum tvo fyrir einn, ákváðum því að kaupa strax sex, þannig að við fengum tólf. Enn bólaði ekkert á neinum Stuðmannaþyrstum Íslendingum og okkur farið verulega að lengja eftir félagsskap enda fyrir löngu orðin hundleið á hvort öðru. Eftir þónokkra bið á barnum sáum við fyrsta íslenska kollinn birtast upp úr rúllustiganum. Nú fór loksins að færast fjör í leikinnn (það héldum við allavega), einn og einn nálgaðist nú barinn með augnaráði drykkjusjúklingsins og maður var farinn að kannast við landann. En landinn er ekki við sama heygarðshornið og hann var hér á árum áður, því flesti fengu sér bara einn bjór og síðan út í vél. Í vélinni var allt með ró og spekt mest alla leiðina, fyrir utan það að Harpa (fyrrverandi hans næstum því ástmögurs Íslands) var með dólgshátt við vin okkar Rakelar sem sat henni við hlið. Hún gaf honum meira að segja svo allsvakalega undir fótinn að það stór sá á honum. Þegar við lentumt á Luton, var brunað sem leið lá í taxa til London svo að við misstum nú ekki af tónleikunum því klukkan var orðin ansi margt. Komum á hótelið seint og um síðir og smelltum okkur þar í partígallann og skelltum í okkur einum GOGT, og svo öðrum, og svo einum til, svona til þess að hita okkur upp. Héldum síðan af stað frá hótelinu í bleikum Rolls Royce með þotuliði Íslands öll í bleikum smókingum í áttina að Royal Albert Hall sem skartaði sínu fegursta þegar við mættum á svæðið. Þar fyrir utan voru einhverjir Íslenskir dónar að taka myndir svo ég lamdi þá alla í hausinn með rándýru kampavínsflöskunni sem ég hafði tekið með mér úr rándýra Rollsinum (meira helvítis prumpuliðið þessir slordónar frá Íslandi). Við mingluðum síðan í þónokkurn tíma við auðjöfrana sem slóu sér á lær og sögðu tröllasögur og lygasögur úr viðskiptalífinu á milli þess sem þeir svolgruðu rándýrt bleikt kampavín úr plastglösum. Við vorum náttúrulega með miða í eitt af "boxunum" eins og jöfrarnir kölluðu lúxus stúkurnar þar sem kóngafólkið situr venjulega. Tónleikarnir fóru vel af stað og stuðið stigmagnaðist eftir því sem fleiri lög voru spiluð. Það var frítt að drekka og éta í boxunum þannig að við þömbuðum stíft og bruddum kokteilpinna af áfergju, enda ekki vön því að neyta flotinu þó ókeypis sé (hmm). Eftir tónleikana var síðan partý í kjallaranum þar sem pöpullinn minglaði við auðmenn Íslands og það fór allt mjög vel fram. Að vísu var loftræstingin biluð og nokkrir féllu í ómegin, en það kom ekki að sök því það fólk hefði hvort eð er fallið í ómegin af drykkju, bara seinna. Síðan héldum við í annað eftirpartý sem var einungis ætlað auðmönnum Íslands og fylgisveinum þeirra. Þar var síaðn sungið og trallað fram eftir nóttu. Haldið var áfram að tralla þegar upp á hótel var komið og ekki hætt fyrr en Bretinn skellti í lás á barnum.. Nú var líka komið nóg af sukki og svínaríi og auðmenn Íslands ásamt lagskonum og skósveinum héldu til hvílu í sæluvímu eftir velheppnaða tónleika og partýstuð. Posted by Hello