miðvikudagur, mars 30, 2005



Eitthvað gengur illa hjá stórvini mínum honum Sigga galdrakarli að koma saman þessari galdrasýningu fyrir vestan. Grey kallinn hefur á átt í stökustu vandræðum með að finna fjármagn til þess að halda rekstrinum gangandi, svo ekki sé talað um uppbyggingu á nýju safni í Bjarnarfirði. En Sigurður deyr ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Siggi hefur nefnilega tekið á það ráð að ráðast með kjafti og klóm inná flösku- og dósamarkaðinn sem hingað til hefur verið einokaður af íþróttafélögum og tælenskum draugum sem sveimað hafa um í húsagörðum höfuðborgarinnar íbúum hennar til mikillar skemmtunar og yndisauka. Siggi segir að nú sé mál að linni og að hann geti hreinlega ekki setið á honum stóra sínum lengur, og segist ætla að uppræta þá spillingu sem hefur verið á markaðnum. "Þessir slordónar og andskotar hafa skipt markaðnum niður á milli sín eftir hverfum á leynilegum fundum sem haldnir hafa verið í gömlum lýsisgrútartanki í vesturbænum. Þeir hafa þannig setið einir að kjötkötlunum og safnað að sér auði bist og bast. En nú er mál að linni og ég ætla að taka til á þessum markaði eins og mér einum er lagið, ég mun koma eins og stormsveipur inná markaðinn svo eftir verður tekið". sagði Siggi við blaðamann Fréttablaðsins þar sem hann var að safna flöskum í Þingholtunum (gullni þríhyrningurinn) svo halda megi áfram þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur á Ströndum í kringum galdasýningarnar á Hómavík og í Bjarnarfirði. Siggi hefur nú tekið upp viðurnefnið Siggi Dós, en eins og flestir muna þá gekk Siggi lengi undir nafninu Siggi flaska enda alla tíð fundist sopinn góður. "Mér finnst þetta eiginlega bara fyndið enda lítill munur á dós og flösku, því allt verður þetta að ösku" sagði Siggi kampakátur að lokum, skellti í góm að hætti Strandamanna og strunsaði í burtu með dósir og flöskur í massavís niður Njarðargötuna í átt að Njarðargötu 25, því þar búa víst auðkýfingar sem henda öllu steini léttara beint út í tunnu, flokka hvorki né skila, svei attann. Posted by Hello

Engin ummæli: