Dröbban slær ekki slöku við þó hálf áttræð sé!
Dröbban sló til veislu síðastliðinn laugardag í tilefni þess að hún komst á óræðan aldur í vikunni sem leið. Stúlkukindin var ekkert með neitt hálfkák hvað varðar veisluföng og bauð upp á Sushi með öllu tilheyrandi. Partýgestir gátu síðan valið úr því hvort þeir teyguðu öl úr krús eða sötruðu vesældarlega á rauðu eða hvítu með gómgætinu. Grínarar stigu á stokk og voru með allskyns fíflalæti. Þar fór fremstur í flokki Páll Framson sem lét gamminn geysa um Dröbbuna og lét sér fátt um finnast þó gestir fussuðu og sveiuðu af orðbragðinu sem hann lét út úr sér. Hótaði hann m.a. staðarhöldurum því að hann skyldi verpa í náðhúsi þeirra hjóna sama hvað raulaði og tautaði. Endaði hann síðan ræðu sína með því að gera alvöru úr þeim hótunum og gerði sexu að eigin sögn, en það er meira heldur en Framarar haf skorað í allt sumar. Dröfn var síðan með sitt eigið skemmtiatriði er hún íklæddist búningi sem hún hafði heklað fyrir tilefnið og dansaði villtan magadans við trylltan fögnuð viðstaddra. Partýið leistist síðan upp í tóma vitleysu er Gunnar er kenndur er við Brynju steig á stokk og öskraði "Take on me" með AHA í forláta míkrófón sem staddur var í einu af barnaherbergi hússins. Gestir ruddust allir sem einn inn í herbergið og vildu tjúna upp græjuna og fara í keppni um hver væri besti söngvarinn í partýinu. Í kjölfar þess upphófust hópslagsmál vegna ágreinings um hver hefði í raun sigrað þó svo að engin hefði þurft að velkjast í vafa um það enda Sósi alkunnur Karíókí sprelligosi. Sumir gengu meira að segja svo langt að saka maka sinn um að hafa rangt við, en varð ekki kápan úr því klæðinu enda við ramman reip að draga. Sem sé geysigott partýstuð, takk fyrir það GAMLA!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli