Ágætis helgi að baki. Ég og Kela fórum á Nordica eftir vinnu á föstudaginn og fengum okkur smá öl og smá hvítvín. Þegar við sátum þar og ræddum um daginn og veginn þá kemur þarna maður inn með svakalega skutlu upp á arminn. Svo sem ekkert í frásögur færandi en þetta stakk eitthvað svo í augun, vegna þess að þau voru bæði mjög flóttaleg og hegðuðu sér eitthvað hálf undarlega. Aldursmunirinn á þessu pari var líka mjög mikill og þá ályktuðum við náttúrulega að þarna væri svokallaður "Escort Service" á ferðinni sem er fyrirferðarmikill iðnaður erlendis. Stelpan sem varla hefur verið eldri en tvítug var íklædd miklum minkapels með glitrandi gimsteina í eyrnasnepplunum, karlinn komin vel yfir fimmtugt og var hinn vandræðalegasti. Nú, nú, þau fá sér sæti í námunda við okkur og við byrjum að gjóa augunum í átt til þeirra og hvísla eins og góðum kjaftakerlingum sæmir. Við vorum alveg hrikalega hneyksluð á þessu og litum illilega á karlinn í hvert sinn sem hann gaut augunum í átt til okkar. En allt í einu þá kemur stormandi inn heill hópur af fólki lítur í kringum sig og tekur stefnuna í átt að borðinu þar sem karluglan og escortið sátu. "Mikið er gaman að sjá ykkur feðginin svona sæt og fín" heyrist skyndilega ofan úr einni kellingunni sem kom stormandi að borðinu. Þá var þetta feðgin að fara á árshátíð!! Ég roðnaði og fór allur í keng en Rakel skellihlóg, skellti í góm og æpti "Óskar, hún er ekkert escort, hún er með pabba sínum", djöfull var það vandræðalegt.
Ég fór síðan á þorrablót í vinnunni um kvöldið og gæddi mér á kjömmum og pungum, staldraði stutt við og var komin heim um 10 leytið, enda var konan búin að bjóða mér upp í dans ef ég kæmi snemma heim. Á laugardagskvöldið komu Sigga og Bibbi í heimsókn, við gáfum þeim nautasteik að borða og skoluðum steikinni niður með svellköldum tekíla. Fórum síðan í sund á sunnudaginn þar sem ég varð fyrir skelfilegri lífsreynslu. Þegar ég kem inn í karlaklefann þá tekur á móti mér ein almesta skítalykt sem ég hef á ævinni fundið. Það lá við að ég félli í ómegin. Menn eiga að skíta heima hjá sér en ekki í sundi!!!!!!!!!!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli