fimmtudagur, júlí 10, 2008

Skemmtilegir hlutir að gerast á sauðfjársetrinu

Sauðfjársetur á Ströndum opnaði á dögunum sérsýningu um eina
frægustu kind Íslandssögunnar, hina fótfráu og stórgáfuðu Herdísarvíkur-Surtlu. Á sýningunni, sem verður uppi til sumarloka, segir frá ævi og örlögum kindarinnar og þar gefur einnig að líta höfuð Surtlu sem Sauðfjársetrinu var góðfúslega lánað af Sigurði Sigurðarsyni dýralækni. Árin 1951 og 1952 var Surtla hundelt af smölum, hundum og skotmönnum, en þá fóru fram fjárskipti á svæðinu frá Hvalfirði að Rangá vegna mæðiveikinnar. Óhætt er að segja að kindin hafi orðið goðsögn í lifanda lífi, en fjárskiptayfirvöld gripu að lokum til þess örþrifaráðs að leggja fé til höfuðs henni. Eftir margra klukkustunda eltingaleik þann 30. ágúst 1952 var Surtla felld ofan við Herdísarvík, en örlög hennar vöktu mikla athygli og hörð viðbrögð fjölmargra sem töldu að kindin hefði átt skilið að lifa, enda bersýnilega ekki mæðiveik (tekið af vef Sauðfjárseturs á Ströndum).

Engin ummæli: