Sósi hætt kominn á fjöllum
"Urð og grjót upp í mót, ekkert nema urð og grjót" sönglaði Sósi er hann tölti áfram í jóreyknum sem stóð aftan úr Litlu-Lommu sem skeiðaði einstigið upp á fjallið Keili á Laugardaginn var. Er upp var komið, eftir að hafa þurft að skríða í urðinni til þess að komast á toppin og nokkur illúðugleg augnaráð annarra göngumanna sem trúðu ekki eigin augum að Sósi og Lomma (sem allra jafna eru skynsamt fólk) væru að klifra í stórgrýttri urð með 5 ára gamalt barn sem undanfara, blasti við göngufólki stórbrotið útsýni til allra átta. Litla Lomma blés ekki úr nös en aðra sögu var að segja um aðra fjölskyldumeðlimi sem vöru með í för. Eftir að hafa skrifað í gestabókina og varpað öndinni léttara, tók við ekki síður erfið fjallganga niður á við. Sem fyrr létu Sósi og Lommukvikindið Litli-Lommu leiða hópinn, enda fráust á fæti og úthaldsmest í hópnum. En er komið var niður í miðja hlíð fór að síga á ógæfuhliðina hjá Sósa, sem hafði ekki tekið eftir því að hafa lagt af stað í þessa örlagaríku ferð í 30 ára mölétnum gönguskóm sem fyrir löngu voru komnir af léttasta skeiðinu. Smátt og smátt fór að kvarnast úr sóla Sósa og ekki leið á löngu þangað til ekkert var eftir af sólanum nema tómið eitt. Sósa tókst þó með allnokkru harðfylgi að komast klakklaust niður basaltbreiðuna og í skjól fyrir grjótmulningnum. Eftir að hafa skafið allra stærstu hnullungana úr ilinni var ákveðið að halda áfram för þó Sósi væri særður mjög. En ekki tók þá betra við, því nú fór að kvarnast all verulega úr hægri sólanum sem smátt og smátt hvarf í rykið svo Sósi stóð því sem næst berfættur í grýttu apalhrauninu sem umlukti allt. Sósi komst þó að lokum helsærður til byggða með dyggri aðstoð Litlu og Stóru-Lommu sem grétu alla leiðina úr hlátri svo stór sá á hraunbreiðunni. Hér til hliðar má sjá er sólinn á skó Sósa var farinn að gefa eftir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli