Lomman bregður á það ráð að éta teninginn þegar hún er að tapa í Trivial fyrir Sósa!
Eitt yfirnáttúrulega fyndið gerðist í húsi Sósa um jólin. Sósi og Lomma ákváðu einn daginn á milli jóla og nýjárs að grípa í spil og varð Trivial Pursuit fyrir valinu. Ákveðið var áður en spilið hófst að sá/sú sem myndi lúta í lægra haldi skyldi héðan í frá verða kallaður/kölluð "vanviti" af öllum á heimilinu og því til mikils að vinna eða réttara sagt tapa. Hófust nú leikar og mátti varla á milli sjá hver færi með frumkvæðið, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum hallaði þó frekar á Sósa. Sósi tók nú á það ráð að sækja í búrið það sem eftir var af jólabjórnum og snakkinu til þess að slá Lommuna útaf laginu enda Lomman fræg að endemum fyrir bjór og snakkát. Það var þó ekki til eins mikill varningur í búrinu eins og Sósi gerði ráð fyrir, enda varð Sósahús fyrir miklum búsifjum á milli jóla og nýjárs er óvelkomnir gestir teiguðu öl og bruddu snakk eins og þeir ættu lífið að leysa. Þó var til kippa af bjór og 5 kg. af snakki sem Sósi skellti hróðugur á borðið fyrir framan Lommuna og sagði "Éttu nú Lommutetur eins og þú getur í þig látið" Þetta snilldarbragð Sósa gekk eftir og nú tók Lomman að raða í sig snakkinu og teiga ölið í lítra vís. Við þetta riðlaðist leikur Lommunar og Sósi var komin með hana upp að vegg á augabragði. Þetta fór verulega í taugaendana á Lommutetrinu og nú bruddi hún snakkið sem aldrei fyrr. Svo mikið gekk á, að á endanum þá tók hún teningin í misgripum fyrir snakkið og byrjaði að bryðja hann af áfergju. Það leið þó nokkur stund áður en Lomman áttaði sig á því hvað hafði gerst, en þá höfðu endajaxlarnir styst um 0,5 cm (við erum að tala um grafít tening).
Þetta fannst Sósa og Lommunni agalega fyndið og sættust því umsvifalaust á jafntefli enda nánast um pattstöðu að ræða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli