föstudagur, janúar 20, 2006

Sósi var rétt í þessu að fá frábærar fréttir, "þú mátt fara heim í dag Sósatetur" sagði læknirinn við Sósa þegar hann vaknaði í morgun. "Slettu í þig hafragrautnum og skelltu þér í sturtu, síðan ætla ég að þukla þig aðeins og þá ert þú bara klár í slaginn" sagði doktorinn og brosti út í annað. Læknirinn sagði einnig að Sósi væri mikið hörkutól og hann teldi að það hefðu ekki margir sloppið eins vel út úr þessu slysi eins og Sósi gerði. Læknirinn telur Sósa vera ofboðslega vel byggðan og hafi því verið betur í stakk búinn en flestir aðrir að taka við slíku höggi eins og Sósi fékk í bakið á sunnudaginn. Læknirinn sagði að höggið hefði verið svo mikið að hjartað hefði gefið frá sér slatta af ensímum, en það gerir hjartað bara ef það verður fyrir einhverju meiriháttar áreiti. Þannig að Sósi má teljast heppinn að hafa sloppið með sekkinn í þetta skiptið.
Nú ætlar Sósi að fara að hafa sig til og klæða sig í kjól og hvítt enda búin að hangsa hér á Lannsanum í næstum heila viku. Verð samt að koma því á framfæri að starfsfólkið hér er sjúklega meiriháttar!
Set bráðlega inn myndir af Sósa á Lannsanum, slysinu o.fl.
Yfir og út!

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Sósi er miður sín þessa stundina. Hann var að fá þær fréttir að hann fær ekki að fara heim til Lommu sinnar í kvöld heldur þarf að bíða morgundagsins og þá mun læknagegnið skera úr um hvort Sósi sé í það góðu ástandi að hann fái að fara heim. Sósi hafði hlakkað mikið til að komast upp í rúm til Lommunar og kenna henni Sósasiði sem Lomman hlýtur að vera farin að gleyma. Sósi hefur ekki sést í rekkju Lommunar í næstum viku og fer það að nálgast met ef vel er að gáð. En það þýðir ekkert að grýta Björn bónda, það er jú bóndadagurinn á morgun og þá verður stjanað við minn mann á alla kanta. Stórslasaður bóndi á bóndadegi hlýtur að fá afar sérstaka yfirhalningu af hálfu spúsu sinnar, það var Sósa allavega sagt í gamla daga.
Annars er það að frétta af bata Sósa að í gær var tekin út úr bringunni á honum 12 cm löng slanga sem þjónaði þeim tilgangi að sjúga í burtu allt vatn og blóð sem kom frá lungna. Lungað virðist hafa jafnað sig nokkuð vel og það lítur allt mjög vel út. Hjartað í Sósa gaf frá sér slatta af ensímum þegar hann fékk högg á bakið en það gerist víst oft eft hjartað hreyfist eitthvað örlítið. Engar skemmdir hafa fundist á innri líffærum og þar virðist allt vera í gúddí. Hjúkrunarfræðingurinn er þegar búin að minnka mænudeyfinguna úr 6 ml niður í 2 og því hafa verkirnir vegna rifbeinanna aukist til muna. Áætlunin er sú að mænudeyfingin verði tekin í dag og þá á Sósi bara að bryðja töflur út í eitt. Sósi er að vona ef hann bítur fast á jaxlinn og verður ekki með neitt kerlingarvæl að hann fái að fara heim í dag, ef ekki í dag þá á morgun enda verður maður ekki á spítala á bóndadaginn ónei. Fólk hefur verið duglegt að heimsækja Sósa (þó ekki allir) og hafa sumir komið hér dag eftir dag og kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Það er ekki skemmtilegt að kúldrast á spítala daginn út og daginn inn, maturinn frekar vondur og svo er ég á hjarta og lungnaskurðdeild og því ekki mikið um partý eða annan gleðskap. En Sósi stefnir á góðan bata á mettíma, ætlar sér að verða komin í ræktina í næstu viku (allavega í pottinn) og aldrei að vita nema ég láti sjá mig í vinnunni.

Ný hefur Sósi legið á milli heims og helju á Lannsanum síðan á sunnudaginn og fer líðanin hríðversnandi. Er Sósi ætlaði að bjóða til blaðamannafundar í gær til þess að skýra út fyrir almenningi í hversu djúpan skít Sósi væri komin í tók einhver kall sig til á stofunni við hliðina á Sósa og blés einnig til blaðamannfundar og meira að segja á undan Sósa. Sósi varð við þetta öskuillur og spurði mannfjandann hvurju sætti þá svaraði hann því til að hann væri pólipíkus og þeir væru svo ofboðslega vinsælir að fólk hreinlega þyrfti nauðsynlega að fá fréttir af þeim á 10 mín fresti, sérstaklega ef eitthvað kæmi fyrir þá. Sósi hrópaði á þetta græna flak sem lá þarna í rúminu og spurði hann hvort hann vissi ekki hver Sósi væri. Hann þóttist nú kannast við nafnið en aldrei lesið neitt eftir þann ágæta höfund. Er Sósi var að horfa á fréttir í gærkveldi þá var klukkutímaþáttur um þennan græna kall sem lenti í bílslysi en öngvar fréttir af óförum hins mikla Sósa. Sósi bara hreinlega skilur ekkert í því að enginn hafi mætt á blaðamanafundinn og er hálf sár yfir því auk þess að vera allstaðar aumur sniff, snökt. Myndin hér að ofan var tekin við það tækifæri er ég og Steingrímur rifusmst um hvor ætti að hafa blaðamannafund að undan.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Sósi lenti heldur betur í því síðastliðna helgi. Kallinn skellti sér í sinn fyrsta vélsleðatúr sem endaði með ósköpum eins og ferðir Sósa vilja svo oft gera. Sósi keyrði á barð á sleðanum og hentist eina 23 metra (sem er víst nýtt met). Upp úr þessu hafði Sósi 6 brotin rifbein og samfallið lunga auk annarra smærri áverka sem ekki tekur nokkur tali að nefna. Þannig að nú liggur aumingja Sósi á Lannsanum og getur sig hvergi hreyft og æmtir og skræmtir við minnstu hreyfingu. Sósi er þakklátur öllum þeim sem lagt hafa leið sína til þess að heimsækja goðið og þeir hafa verið ófáir. Hér hefur verið mikið glens og gaman og alls ekkert leiðinlegt að liggja hér á lansanaum, enda fádæma gott starfsfólk hér að sinna Sósa.
Nú er mér orðið svo illt í bakinu að mér finnst mál að linni, kem með nánari upplýsingar af slysförum mínum seinna auk mynda af þyrlunni með Sósa inn í og ýmislegt annað.